Loka leit
Um Smith & Norland

Um Smith & Norland

Smith & Norland flytur inn og selur rafbúnað af margvíslegum toga, allt frá vöfflujárni til virkjunar. Sögu þess má rekja allt aftur til ársins 1920 er Paul Smith stofnaði innflutnings- og heildsölufyrirtæki sem hann kenndi við sjálfan sig. Fyrirtæki Pauls Smith seldi símavörur og annan rafbúnað og hóf fljótlega samstarf við þýska rafmagnsfyrirtækið Siemens.

Árið 1954 réðst Sverrir Norland rafmagnsverkfræðingur til fyrirtækisins og 1956 stofnuðu þeir Paul Smith ásamt nokkrum öðrum einstaklingum hlutafélagið Smith & Norland hf. Sverrir Norland varð forstjóri fyrirtækisins við stofnun þess og gegndi þeirri stöðu til dánardægurs, í 51 ár, en hann lést sumrið 2007, áttræður að aldri. Á þessu tímabili breyttist Smith & Norland úr nokkurra manna fyrirtæki með aðstöðu í Hafnarhúsinu við Geirsgötu í öflugt fyrirtæki í eigin húsnæði að Nóatúni 4.

Hjá Smith & Norland starfa nú 36 manns. Drjúgur hluti þeirra er rafvirkjar, rafeindavirkjar, rafmagnstæknifræðingar og rafmagnsverkfræðingar. Af þeim sökum er mikil fagleg þekking í Smith & Norland.

Vöruval Smith & Norland er margbreytilegt. Raflagnaefni, rafstrengir, ljósabúnaður, lágspennurofabúnaður, iðnstýringar og heimilistæki. Auk þess má nefna umferðarstjórnbúnað, öryggistæki fyrir flugvelli, búnað fyrir veitur og orkuframleiðslufyrirtæki og lækningatæki. Smith & Norland rekur einnig þjónustuverkstæði fyrir heimilistæki í Borgartúni 22.

Meðal kunnra samstarfsfyrirtækja Smith & Norland má, auk Siemens, nefna BSH, Voith Hydro, Smiths Detection, Rittal, OBO Bettermann, Kathrein, Hensel, SSS Siedle, Nexans og Fagerhult.

Fyrir ofan: Nóatún 4 - Portið. Fyrir neðan: Söludeild rafbúnaðar.

Fyrir ofan: Þvottavélastafli. Fyrir neðan: Nóatún 4 - Séð í átt að tjörninni.