Loka leit
Breiðmynd
Snjallgangbraut

Snjallgangbraut

1. febrúar 2022

Í vesturbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið á Neshaga, er ný tegund öryggislausnar fyrir gangandi vegfarendur. Neshagi er tveggja akreina vegur með miðeyju og fjölfarinni gangbraut við Melaskóla.

Lausnin samanstendur af sérstöku stefnuvirku kringlóttu LED-miðeyjuljósi á toppi átta metra stólpa, 2 x 8 flötum LED-ljósum steyptum í gangbrautina með jöfnu millibili sem stika gangveginn, skynjurum sem nema birtu og gangandi vegfarendur, upplýstum LED-gangbrautarskiltum á báðum gangstéttum og stjórnkassa á miðeyjunni.

Þessi búnaður eykur til muna öryggi gangandi vegfarenda við dimmar aðstæður. Er rökkva tekur kveikir stjórnkassinn stigvaxandi á miðeyjuljósinu og skiltunum. Þegar vegfarandi gengur að gangstéttarbrún kveikir stjórnkassinn einnig á ljósunum í gangveginum og vegfarandinn gengur yfir akveginn við góð birtuskilyrði. Lýsingin í skiltunum og vel lýstur gangvegurinn tryggja að ekki ætti að fara fram hjá ökumanni, sem nálgast gangbrautina, að gangandi vegfarandi þverar akbrautina.

Þessi lausn kemur frá samstarfsfyrirtæki Smith & Norland, Yunex Traffic (áður Siemens Mobility), og er ein af fjölmörgum snjöllum og öruggum lausnum fyrirtækisins á sviði umferðarstýringar sem Reykjavíkurborg hefur gert að sínum um áratuga skeið.

Sjón er sögu ríkari. Drífið ykkur í Vesturbæinn, þegar myrkur er skollið á, og upplifið virkni búnaðarins á tveimur jafnfljótum.